Innlent

Klessubílatækið opnað aftur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Klessubílarnir voru ekki í notkun í Smáratívolíi í gær.
Klessubílarnir voru ekki í notkun í Smáratívolíi í gær. vísir/ernir
Opnað var aftur í klessubílana í tívolíinu í Smáralind í dag. Tækinu var lokað á laugardag eftir að sjö ára stúlka fékk raflost í tækinu, en Vinnueftirlitið tók út vettvanginn í morgun.

Veski sem stúlkan hafði meðferðis festist í tækinu með þeim afleiðingum að skammhlaup varð. Hún var flutt á sjúkrahús en slasaðist ekki alvarlega, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum.

Tækinu var hins vegar ekki lokað fyrr en læknir á spítalanum tjáði fjölskyldu stúlkunnar að hringja þyrfti á lögregluna vegna málsins. Lögregla hafði í kjölfarið samband við Vinnueftirlitið og Mannvirkjastofnun, sem tóku út vettvang slyssins.

Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir að svo stöddu, en Vinnueftirlitið taldi ekki hættu á ferð og gaf því grænt ljós á opnun.

María Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Smáratívolís, vildi ekki tjá sig um málið.

Uppfært klukkan 19:20:

María Björk segir að Vinnueftirlitið hafi í dag farið yfir alla þætti öryggismála og reyndist ekki um neina bilun að ræða. Því hafi tækið verið opnað á ný.

Þá verði eftir óhappið farið yfir allt sem betur fá fara og gerðar ráðstafanir hjá Smáratívolí til að koma í veg fyrir að svona atvik geti ekki átt sér stað aftur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×