Fótbolti

Aron kominn aftur í bandaríska landsliðið eftir fjórtán mánaða fjarveru

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron aftur kominn í rautt, hvítt og blátt.
Aron aftur kominn í rautt, hvítt og blátt. vísir/getty
Aron Jóhannsson, leikmaður Werder Bremen, er kominn aftur í bandaríska landsliðið eftir fjórtán mánaða fjarveru en hann var í gærkvöldi kallaður í hópinn sem mætir Mexíkó og Kosta Ríka á næstu dögum í fyrstu umferð lokastigs undankeppni HM 2018 í norður og Mið-Ameríku.

Aron hefur ekki verið í landsliðshópi Bandaríkjananna síðan hann kom af bekknum í 4-1 tapi liðsins gegn Brasilíu 8. september 2015. Hann meiddist skömmu eftir það og var frá í rétt tæpt ár eða þar til hann sneri aftur í september.

Hann skoraði sitt fyrsta mark í ellefu mánuði fyrir Brimarborgarliðið í Íslendingaslag gegn Alfreð Finnbogasyni og félögum í Augsburg og sagði í viðtali við Fréttablaðið að hann var gráti næst að sjá boltann aftur í netinu eftir að vera svona lengi frá.

Aron sagði í sama viðtali að hann vonaðist til að vera valinn í landsliðshópinn fyrir vináttuleikina gegn Kúbu og Nýja-Sjálandi í síðasta mánuði en svo var ekki. Hann er aftur á móti einn af fjórum framherjum sem voru valdi fyrir þessa stórleiki gegn tveimur af bestu liðum álfunnar.

Þrátt fyrir að vera svona lengi frá óttaðist Aron aldrei um landsliðssæti sitt. Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, gerði allt hvað hann gat að koma Aroni aftur í stand en hann hjálpaði Íslendingnum í gegnum meiðslin eins og Aron sagði sjálfur frá.

Aron er eins og þrír aðrir framherjar í bandaríska hópnum ansi reynslulitlir í undankeppni HM en þar á hann aðeins að baki þrjá leiki og eitt mark. Jordan Morris á að baki þrjá leiki og ekkert mark en Bobby Wood, leikmaður Hamburg hefur skorað tvö mörk í sex leikjum í undankeppni HM fyrir bandaríska landsliðið.

Aðalmaðurinn í framlínu Bandaríkjanna er sem fyrr Jozy Altidore en hann á að baki 31 leik og 16 mörk í undankeppni HM fyrir bandaríska landsliðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×