Fjöldi þeirra nýnema sem voru innritaðir í B.Ed. grunnskólakennaranám í ár er einungis þriðjungur af því sem var fyrir áratug. Árið 2006 voru 244 nemendur innritaðir, árið 2011 voru þeir 160 en voru 79 í ár.
Í dag þarf að ljúka meistaranámi til þess að hljóta réttindi sem grunnskólakennari. Í ár voru 70 nemendur innritaðir í M.Ed. nám. Búast má við að einungis hluti þeirra útskrifist.
Kennarar eru samningslausir og hafa tvisvar fellt nýlega kjarasamninga, í júní og í byrjun september. Eins og fram kom í Fréttablaðinu á föstudaginn jók úrskurður kjararáðs, um launahækkun alþingismanna og ráðherra, mjög á óánægju þeirra.
Fréttablaðið hefur upplýsingar um að í skólum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið rætt um að grípa til einhvers konar aðgerða, jafnvel vinnustöðvunar.
Ágúst Tómasson, trúnaðarmaður kennara í Vogaskóla, segir stöðu kennara snúast um meira en kaup og kjör þeirra núna.
„Meðalaldur kennara er 48 ár, skilst mér. Stærstur hluti af kennurum er búinn að afsala sér kennsluafslætti og ef meðalaaldurinn er 48 ár eru margir sem eru komnir á sjötugsaldur og nýliðun er mjög lítil,“ segir hann.
Ágúst segir að á meðan innan við 100 nemendur séu að hefja grunnskólakennaranám séu um 300 kennarar sem hætti störfum.
„Þannig að á næstu örfáum árum verður meðalkennarinn kona á sjötugsaldri með 20-30 krakka fyrir framan sig kennandi 26 tíma á viku. Það er stóra myndin,“ segir Ágúst.
Að því er Ágúst segir hefur leiðbeinendum í grunnskólum fjölgað..
„Yfirleitt hefur verið hægt að manna skóla í Reykjavík með menntuðum kennurum, en það er ekki alveg lengur. Við sem höfum kosið þetta að ævistarfi sjáum ekki bara fram á léleg laun heldur líka að sjálft kerfið er að brotna niður,“ segir Ágúst Tómasson.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Aðsókn nýnema í kennaranám hrunin
Jón Hákon Halldórsson skrifar
