Enski boltinn

Fyrsti sigur Hull í níu leikjum | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tvö mörk með tveggja mínútna millibili tryggðu Hull City kærkominn 2-1 sigur á Southampton í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Þetta var fyrsti sigur Hull frá því liðið vann Swansea City í 2. umferð deildarinnar. Þrátt fyrir sigurinn er Hull ennþá í fallsæti en er nú með jafnmörg stig og West Brom sem er í 17. sæti.

Southampton, sem hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum sínum, er í 10. sæti deildarinnar með 13 stig, aðeins þremur stigum meira en Hull.

Leikurinn byrjaði vel fyrir Southampton því Charlie Austin kom liðinu yfir með marki úr vítaspyrnu strax á 6. mínútu. Þetta var fimmta deildarmark hans á tímabilinu.

Staðan var 0-1 í hálfleik og allt fram á 61. mínútu þegar Robert Snodgrass jafnaði metin með frábæru skoti.

Aðeins tveimur mínútum síðar tók Snodgrass aukaspyrnu og sendi boltann inn á teiginn þar sem Michael Dawson reis hæst og skallaði boltann framhjá Fraser Forster í marki Southampton.

Þetta reyndist vera sigurmarkið og leikmenn Hull fögnuðu langþráðum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×