Enski boltinn

Jóhann Berg bestur hjá Burnley að mati ESPN

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson var valinn maður leiksins hjá álitsgjafa ESPN fyrir frammistöðu sína í leik Burnley og Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Burnley vann ævintýralegan 3-2 sigur en Ashley Barnes skoraði sigurmarkið í uppbótartíma eftir sendingu Jóhanns Berg.

Íslenski landsliðsmaðurinn lagði ekki aðeins upp sigurmark Burnley heldur skoraði hann annað mark liðsins á 14. mínútu. Þetta var fyrsta mark hans fyrir Burnley og jafnframt fyrsta mark hans í ensku úrvalsdeildinni.

Jóhann Berg kom Burnley í 2-0 en Palace-menn komu til baka og jöfnuðu metin. Burnley átti þó síðasta orðið þegar Barnes skoraði af stuttu færi eftir sendingu Jóhanns Berg.

Jamie Smith, sem skrifar um Burnley fyrir ESPN, gaf Jóhanni Berg níu í einkunn fyrir frammistöðu sína í leiknum á Turf Moor í gær. Enginn leikmaður Burnley fékk hærri einkunn en íslenski landsliðsmaðurinn.

Í umsögn Smith segir að það eina sem hafi vantað í leik Jóhanns Berg væru mörk og stoðsendingar en það hafi komið í leiknum gegn Palace. Smith segir að Jóhann Berg hafi átt þátt í öllum þremur mörkum Burnley og þótt Steve Mandanda, markvörður Palace, hefði líklega átt að gera betur þegar hann skoraði hafi stoðsending Jóhanns Berg í sigurmarkinu verið frábær.

Með sigrinum fór Burnley upp í 9. sæti deildarinnar en nýliðarnir eru ósigraðir í síðustu þremur leikjum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×