Innlent

Fá að kryfja líkið sem fannst í fjörunni í Grindavík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Umrædd skúta.
Umrædd skúta. Mynd/LHG
Hæstiréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjaness og veitt lögreglunni á Suðurnesjum leyfi til að framkvæma réttarkrufningi á líkinu sem fannst við brak franskrar skútu í fjörunni í Grindavík.

Ekkert hafði spurst til skútunnar frá því í sumar. Skútan hafði siglt frá Portúgal þann 7. júlí síðastliðinn og hafði áætlað komu til Azoreyja þann 16. júlí. Einn maður var í áhöfn, hinn 63 ára gamli Joseph Le Goff.

Talið er að líkið sem fannst sé af skipstjóranum. Að mati lögreglunnar er ekki hægt að útiloka að dauðsfall hins látna verði rakið til refsiverðrar háttsemi og af þeim sökum sé nauðsynlegt að kryfja lík viðkomandi einstaklings.

Beiðni lögreglu um krufningu var hafnað af héraðsdómi þar sem ekki hafi verið leitað samþykkis fjölskyldumeðlima. Segir í greinargerð lögreglu til Hæstaréttar að ekki liggi fyrir af hvaða einstaklingi þær líkamsleifar sem um ræðir séu.

Að mati Hæstaréttar eru skilyrði laga vegna réttarkrufningar uppfyllt en þar segir að réttarlæknisfræðileg líkskoðun skuli fara fram þegar lögregla telur það nauðsynlegt í þágu rannsóknar. Einnig skal framkvæma réttarkrufningu, ef nauðsyn þykir, og skal leita úrskurðar dómara um krufningu nema nánasti venslamaður eða nánustu venslamenn hins látna samþykki að hún fari fram. Er því lögreglu heimilt að framkvæmda réttarkrufningu að mati Hæstaréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×