Enski boltinn

Fyrrum leikmaður Man. Utd verður prestur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mulryne í búningi Man. Utd.
Mulryne í búningi Man. Utd. vísir/getty
Margir stuðningsmenn Man. Utd muna vel eftir Norður-Íranum Philip Mulryne sem kom upp úr unglingastarfi félagsins.

Mulryne náði þó aðeins að spila einn aðalliðsleik með United áður en hann fór til Norwich þar sem hann spilaði yfir 160 leiki.

Hann spilaði einnig með Cardiff og Leyton Orient áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2008. Þá var hann einnig búinn að spila 27 landsleiki fyrir Norður-Írland.

Mulryne hefur nú tekið nýja stefnu í lífinu og hefur ákveðið að verða kaþólskur prestur. Ef allt fer að óskum verður hann orðinn fullgildur prestur á næsta ári.

Það hefur ekki gengið vel hjá Mulryne eftir að ferlinum lauk en hann var úrskurðaður gjaldþrota í síðasta mánuði.

Mulryne hóf vegferð sína til að verða prestur í Róm árið 2009. Hann hefur einnig unnið að góðgerðarstörfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×