Enski boltinn

Mourinho: „Við hljótum að vera óheppnasta lið deildarinnar“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jose Mourinho var ekki sáttur með úrslitin.
Jose Mourinho var ekki sáttur með úrslitin.
„Þetta eru klárlega tvö töpuð stig fyrir okkur,“ sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir 1-1 jafntefli við Arsenal í dag. Leikurinn fór fram á Old Trafford og voru heimamenn betri aðilinn í leiknum.

„Ég vil ekki segja að þeir hafi ekki haft áhuga á því að vinna þennan leik, en þeir áttu aldrei möguleika á því að ná í öll þrjú stigin hér í dag. Við vorum frábærir varnarlega í dag, þegar við pressuðum og þegar þeir misstu boltann. Við sáum við öllum skyndisóknum þeirra í dag og vorum gríðarlega óheppnir að tapa þessum leið niður í jafntefli.“

Jose segir að liðið hafi spilað virkilega vel í dag og þegar United hafi verið með boltann hafi leikmönnum liðsins liðið vel og spilað skynsamlega.

„Við skoruðum frábært mark, og fengum fleiri tækifæri til að skora enn fleiri mörk og drepa þennan leik. Eina skiptið sem við réðum ekki við sóknarleik þeirra, skoruðu þeir eina mark sitt í leiknum. Þeir voru heppnir í dag, og við vorum óheppnir. Þannig er boltinn.“

United vildi fá víti í fyrri hálfleiknum þegar Valencia féll innan vítateigs.

„Ég vil ekki tala um það atvik. Þetta er góður dómari og ég veit að hann reynir alltaf sitt besta og dæmir eftir bestu vitund.“

Heilt yfir var stjórinn mjög ánægður með frammistöðu liðsins í dag.

„Í síðustu leikjum hefðum við átt að vinna, og það mjög sannfærandi en við gerum bara jafntefli. Við hljótum að vera óheppnasta liðið í deildinni“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×