Erlent

Tyrkneskir herforingjar sækja um hæli í Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Vísir/AFP
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að tyrkneskir herforingjar hafi sótt um hæli í Evrópu. Það hafi þeir gert í kjölfar valdaránsins sem misheppnaðist í júlí.

Hann gaf ekki upp fjölda þeirra sem hafa sótt um hæli né frekari upplýsingar, en sagði að hvert ríki fyrir sig myndi fara yfir umsóknir herforingjanna.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið, fangelsað og rekið rúmlega 110 þúsund hermenn, kennara, blaðamenn, lögregluþjóna og dómara eftir valdaránið. Um 36 þúsund manns eru í fangelsi.

Bandaríkin og Evrópusambandið hafa gagnrýnt aðgerðir yfirvalda í Tyrklandi, en þar hafa neyðarlög verið í gildi frá valdaránstilrauninni sem gera forsetann og ríkisstjórn hans nánast allsráðandi.

Tyrkland er meðlimur í NATO en Stoltenberg sagði að herforingjar sem hafa verið að starfa innan bandalagsins hafi sótt um hæli í þeim Evrópuríkjum þar sem þeir hafa verið að störfum.

Flóttamannastofnun Þýskalands sagði í dag að frá byrjun árs til október hefði þeim borist 4,438 hælisumsóknir frá Tyrkjum. Það er mikil fjölgun á milli ára en þá voru umsóknirnar 1.767 á sama tímabili.

Yfirvöld í Tyrklandi neita að hafa notað valdaránið til að ryðja andstæðingum sínum úr vegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×