Enski boltinn

Hughes: Allen og Wilshere hefðu getað setið á bekknum og talið peningana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mark Hughes fagnar því að menn vilji spila.
Mark Hughes fagnar því að menn vilji spila. vísir/getty
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Stoke í ensku úrvalsdeildinni, hrósaði miðjumönnunum Joe Allen og Jack Wilshere á blaðamannafundi í dag fyrir að taka skrefið úr stórliði til minna liðs í von um að fá meiri spiltíma.

Walesverjinn Allen yfirgaf Liverpool fyrir tímabilið og gekk í raðir lærisveina Hughes hjá Stoke og hefur blómstrað sem sóknarsinnamður miðjumaður. Wilshere fór á láni frá Arsenal til Bournemouth og er að minna á sig.

Báðir voru orðnir bekkjarmatur hjá sínum liðum og sátu meira og minna rótfastir við tréverkið í hverri viku. Hughes hrósaði þeim fyrir að þora að taka næsta skref.

„Jack var í svipaðri stöðu og Joe. Það er nóg af leikmönnum til sem velja auðvelda kostinn og sitja á bekknum og hirða peninginn hjá stærri liðum án þess að spila í hverri viku og gera meiri kröfur á sjálfa sig,“ sagði Hughes.

„Ég vil því hrósa bæði Wilshere og Joe fyrir að þora að leggja ferla sína undir í hverri viku eins og allir leikmenn eiga að gera. Jack er klárlega frábær ungur leikmaður sem er á þeim tímapunkti á ferlinum að hann verður að spila í hverri viku,“ sagði Mark Hughes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×