Enski boltinn

Mourinho: Ég nýt ekki virðingar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho vill virðingu.
José Mourinho vill virðingu. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, kallar eftir meiri virðingu í sinn garð fyrir það sem hann hefur afrekað í ensku úrvalsdeildinni. Hann vill njóta sömu virðingar og Arsene Wenger nýtur hjá breskum blaðamönnum, að hans mati.

Mourinho og Wenger mætast í hádeginu á morgun þegar Manchester United og Arsenal keyra ensku úrvalsdeildina af stað með stórleik eftir landsleikjahlé. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Portúgalinn er undir pressu þar sem úrslitin hafa ekki fallið með honum en United-liðið er nú þegar átta stigum á eftir efstu liðum í baráttunni um enska meistaratitilinn.

Stór hluti upphitunar fyrir leikinn hjá breskum blöðum fjallar um ríginn á milli Mourinho og Wengers sem eru engir vinir. Honum finnst Frakkinn njóta mun meiri virðingar hjá blaðamönnum.

„Sir Alex er ekki í deildinni lengur og á morgun erum við að tala um sex eða sjö Englandsmeistaratitla,“ sagði Mourino á blaðamannafundi sínum fyrir leikinn í dag.

„Ég hef unnið þrjá og herra Wenger þrjá eða fjóra. Við erum að tala um þá tvo stjóra sem hafa unnið flesta titla í deildinni. Þýðir það ekki að við eigum að njóta virðingar þó úrslitin séu ekki þau bestu þessa stundina? Ég tel herra Wenger njóta meiri virðingar hjá ykkur.“

„Ég nýt ekki virðingar sem er skrýtið því síðasti titill minn í ensku úrvalsdeildinni vannst fyrir 18 mánuðum en ekki 18 árum. Mér finnst ég ekki njóta virðingar,“ sagði José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×