Innlent

Ögmundur skipaður í samráðshóp um endurskoðun búvörulaga

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ögmundur Jónasson er fyrrum þingmaður Vinstri grænna.
Ögmundur Jónasson er fyrrum þingmaður Vinstri grænna. vísir/vilhelm
Í samræmi við ákvæði nýrra búvörulaga hefur nú verið fullskipaður samráðshópur um endurskoðun búvörulaga. Í hópnum eru sex karlar og sex konur og á hópurinn að hafa lokið störfum fyrir lok árs 2018. Athygli vekur að einn þeirra sem á sæti í samráðshópnum er Ögmundur Jónasson, fyrrum þingmaður Vinstri grænna. Ögmundur var skipaður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Ögmundur segist í samtali við Vísi vilja skoða málið af yfirvegun.

„Ég vil bara fyrst og fremst setjast yfir málin og skoða þau sjónarmið sem fram hafa verið sett. Ég geng ekki að þessu með neinar fyrirfram ákveðnar lausnir í þeim efnum,“ segir Ögmundur.

„Eins og menn kannski þekkja þá hef ég viljað standa vörð um íslenskan landbúnað og er ekki talsmaður þess að fara einhver heljarstökk í þeim efnum. En ég vil einfaldlega bara skoða þau sjónarmið sem fram hafa komið og setjast yfir þessi mál á málefnalegan og yfirvegaðan hátt.“

Ögmundur segist ekki hafa áhyggjur af vinnunni framundan, jafnvel þó að afgreiðsla búvörulaga hafi vrið mjög umdeild.

„Ég er mjög áhyggjulítill. Ég vil bara skoða þetta af yfirvegun og róleghetum og það er það sem kannski þessu umræða þurfti á að halda öðru fremur. Þetta var gert undir þinglok undir svona miklu tímapressu mikilli og ég held að það hafi að vissu leyti haft áhrif á þessa umræðu. En ég er talsmaður fyrst og fremst yfirvegunar og þess að skoða málin á málefnalegan hátt.“

Í samráðshópnum eiga sæti:

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir formaður, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Róbert Farestveit, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands

Helga Jónsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja

Sindri Sigurgeirsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands

Björgvin Jón Bjarnason, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands

Elín Heiða Valsdóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands

Ólafur Arnarson, tilnefndur af Neytendasamtökunum

Andrés Magnússon, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins

Elín Margrét Stefánsdóttir, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Jóna Björg Hlöðversdóttir, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Björg Bjarnadóttir, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Ögmundur Jónasson, skipaður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×