Enski boltinn

Cazorla væntanlega ekki með gegn Man Utd | Óvíst með Sánchez

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sánchez og Cazorla ræðast við.
Sánchez og Cazorla ræðast við. vísir/getty
Spænski miðjumaðurinn Santi Cazorla missir líklega af stórleik Arsenal og Manchester United í hádeginu á laugardaginn. Einnig er óvíst með þátttöku Alexis Sánchez í leiknum.

Cazorla er meiddur á hásin og óvíst er hvenær hann verður klár í slaginn á nýjan leik.

Spánverjinn meiddist í leik Arsenal og Ludogorets í Meistaradeild Evrópu 19. október síðastliðinn og hefur ekkert spilað síðan þá.

Sánchez missti af leik Síle og Kólumbíu fyrir viku vegna meiðsla en var mættur aftur á völlinn og skoraði tvívegis þegar Sílemenn unnu 3-1 sigur á Úrúgvæum í fyrradag. Staðan á Sánchez verður skoðuð þegar hann skilar sér aftur til Englands.

Þá eru Spánverjarnir Héctor Bellerín og Lucas Pérez frá vegna meiðsla sem og Per Mertesacker og Danny Welbeck. Þeir tveir síðastnefndir eru báðir að glíma við hnémeiðsli og verða ekki tilbúnir fyrr en á nýja árinu.

Arsenal er með 24 stig í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×