Innlent

Bjarni eftir fundinn með for­seta: Ekki með við­mælendur til að mynda meiri­hluta­stjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni á Bessastöðum í dag.
Bjarni á Bessastöðum í dag. vísir/vilhelm
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætti til fundar við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, á Bessastöðum klukkan 17 í dag í kjölfar þess að Bjarni sleit stjórnarviðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn.

Bjarni ræddi við fjölmiðlamenn eftir fundinn með forseta. Hann sagði að hann hefði greint forsetanum frá því að slitnað hefði upp úr viðræðunum.

„Mér leist þannig á miðað við þau málefni sem enn voru uppi og þennan tæpa meirihluta að þetta væri ekki ríkisstjórn sem ég teldi á vetur setjandi sem var þarna í burðarliðnum,“ sagði Bjarni.

Hann sagði ekki gott að segja hvað gerist næst.

„Það má að vissu leyti segja að næstu skref séu í höndum forsetans.“

„Staðan er í uppnámi“

Aðspurður hvort hann væri enn með stjórnarmyndunarumboðið sagði Bjarni:

„Ja, þar til annar fær það má kannski halda því fram. Ég er ekki með viðmælendur í augnablikinu til að mynda meirihlutastjórn þannig að af því leiðir að staðan er í uppnámi.“

Bjarni sagði að það yrði að koma í ljós hvort að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, myndi vilja ræða við hann um myndun ríkisstjórnar. Hann staðfesti að hann hefði rætt við Katrínu í dag en fór ekki nánar út í hvað þeim fór á milli. Bjarni kvaðst einnig hafa rætt við Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra, en þeir voru á ríkisstjórnarfundi í dag.

Þá sagði Bjarni að það kunni vel að vera að forsetinn veiti öðrum umboðið til stjórnarmyndunar. Aðspurður sagði hann það jafnframt vonbrigði að ekki hafi tekist að mynda ríkisstjórn.

„Mér finnst of mikið af kreddum í umræðunni og menn of fastir í skotgröfum og ekki tilbúnir að sýna sveigjanleika.“

Bjarni sagði það einnig nokkuð mótsagnakennt að svo erfiðlega gangi að mynda ríkisstjórn, sérstaklega þegar staðan hér á landi er eins góð og nú, og vísaði hann til efnahagslegra aðstæðna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×