Enski boltinn

„Margar ástæður fyrir vandamálum enska landsliðsins“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Enskir svekktir eftir tapið gegn Íslandi.
Enskir svekktir eftir tapið gegn Íslandi. vísir/getty
Gary Neville, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í fótbolta, var beðinn um að greina vandamál enska landsliðsins þegar hann svaraði spurningum háskólanema í Oxford á opnum fundi í gær.

Neville spilaði lengi með enska liðinu á tíma sínum hjá Manchester United en náði aldrei neinum árangri með landsliðinu. England hefur ekkert unnið síðan það varð heimsmeistari árið 1966. Oftast er liðið bara ein vonbrigði eins og í sumar þegar það var sent heim af Íslendingum af EM.

„Ég fór á átta stórmót með Englandi. Ég segi það ekki með hroka, ég ætti frekar að skammast mín. Það eru margar ástæður fyrir vandamálum enska landsliðsins. Það að við erum ekki nógu góðir er ein. Stundum er maður bara ekki nógu góður,“ sagði Neville við háskólanemana, en Daily Mail greinir frá.

„Önnur ástæða er sú að ekki nema 32 prósent af leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar eru Englendingar. Þessi tala er í 50 prósentum í Þýskalandi og á Spáni. Það er ýmislegt sem kemur í veg fyrir að ungir enskir strákar geti orðið fótboltamenn. Það er til dæmis dýrt að fara á leiki og að kaupa sjónvarpsáskriftir. Ég man þegar ég fór á völlinn í hverri viku. Það er frábært að læra með því að horfa,“ sagði neville.

Landsliðsbakvörðurinn fyrrverandi bendir líka á að aðstöðuleysi hrjáir ensku grasrótina og færri foreldrar leyfa börnunum að spila fótbolta á götum úti.

„Í hverju þorpi eða hverfi á Spáni er aðstaða fyrir börn að spila fótbolta. Það eru margar ástæður fyrir okkar vandamálum. Við eigum mest af peningum en stundum stýrir þessi peningur okkur í ranga átt,“ sagði Gary Neville.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×