Innlent

Bara geðveik: Beraði brjóstin á bensínstöð - til að sannfæra djöfulinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ágústa Ísleifsdóttir, hláturmild og glaðlynd fjögurra barna móðir, hélt á tímabili í geðrofi að íbúðin hennar væri í maganum á djöflinum. Þegar manneskja lifir í slíkum ranghugmyndaheimi þá getur það leitt af sér alls konar skringilegt athæfi. Í myndbrotinu sem hér fylgir, lýsir Ágústa því hvað hún gerði þegar hún í geðrofi þurfti að sannfæra djöfulinn um að hún elskaði börnin sín.

Ágústa var fyrst lögð inn á geðdeild liðlega tvítug, óhuggandi í ástarsorg. Hún hefur verið inn og út af geðdeild vegna þunglyndis, geðhvarfa og geðklofa í nærri tvo áratugi en hefur ekki þurft að leggjast inn síðustu 6 ár. Hún er í jafnvægi í dag og á lyfjum. 

Ágústa er ein af fjórum hugrökkum manneskjum sem ákváðu að hleypa Lóu Pind og Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni inn í líf sitt. Þau hafa fylgst með Ágústu, Brynjari Orra Oddgeirssyni, Silju Björk Björnsdóttur og Bjarneyju Vigdísi Ingimundardóttur mánuðum saman, sumum í tæplega ár til að fá djúpa innsýn í tilveru fólks með geðsjúkdóma.

Annar þáttur af sex í heimildaþáttaseríunni „Bara geðveik“ fer í loftið á Stöð 2 í kvöld kl. 20:00. Lóa Pind Aldísardóttir hefur umsjón með þáttunum, Egill Aðalsteinsson er myndatökumaður og Ómar Daði Kristjánsson sér um klippingu. Í 2. þætti kynnumst við Bjarneyju sem er nýgreind með geðhvörf og Ágústu sem hefur glímt við þunga geðsjúkdóma í aldarfjórðung.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×