Enski boltinn

Eggert vill láta rífa nýjan heimavöll West Ham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham United, er langt frá því að vera hrifinn af London Stadium, nýjum heimavelli liðsins.

Hann segir að skásta lausnin væri að rífa völlinn og byggja hann aftur frá grunni. Þetta kemur fram í frétt The Sun í dag.

West Ham fluttist frá Upton Park og á London Stadium fyrir þetta tímabil en hlutirnir hafa ekki gengið sem skyldi á nýja vellinum. Kostnaðurinn fór upp úr öllu valdi og þá óeirðir brotist út á vellinum.

„Þú getur ekki byggt Ólympíuleikvang og ákveðið svo að gera hann að fótboltavelli,“ sagði Eggert sem var stjórnarformaður West Ham í um ár.

„Þú þarft að byrja að hugsa um fótboltann. Við vorum búnir að gera áætlanir um völl með innfellanlegum sætum, eins og á Stade de France.

„Það var sérstakt andrúmsloft á Upton Park og þú vilt að áhorfendur heyri það sem fram fer á vellinum.“

Eggert segir að hans áætlanir um að færa West Ham á nýjan völl hefðu sparað félaginu mikinn pening.

„Þetta er klúður. Peningum hefur verið sturtað ofan í klósettið og upprunalegu áætlanirnar hefðu sparað hundruðir milljóna,“ sagði Eggert.

„Völlurinn er ekki hentugur fyrir fótbolta. Þetta er frjálsíþróttavöllur. Áhorfendur eru 40 metra frá vellinum. Ég vorkenni þeim. Það er ekkert hægt að gera núna. Það er betra að rífa völlinn og byrja aftur frá grunni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×