Viðskipti innlent

Öll leyfi komin fyrir raflínum til Bakka

Kristján Már Unnarsson skrifar
Landsnet hefur nú fengið öll framkvæmdaleyfi vegna umdeildra háspennulína í Þingeyjarsýslum og bendir nú flest til þess að takast muni að koma rafmagni til kísilvers á Bakka í tæka tíð. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. 

Það nötraði allt á Húsavík og nærsveitum í lok ágústmánaðar þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi þann bráðabirgðaúrskurð að framkvæmdir við háspennulínur skyldu stöðvaðar vegna kæru náttúruverndarsamtakanna Landverndar. Fulltrúar allra flokka í sveitarstjórn Norðurþings sameinuðust um að lýsa þungum áhyggjum, enda væru miklir samfélagslegir og fjárhagslegir hagsmunir undir; áttatíu milljarða króna framkvæmdir við Þeistareykjavirkjun og kísilver á Bakka.

En nú hafa sveitarstjórnarmenn fyrir norðan tekið gleði sína á ný. Eftir að úrskurðarnefndin hafnaði kröfum Landverndar um nýtt umhverfismat og um ógildingu nýrra framkvæmdaleyfa virtist ljóst að málið snerist um formsatriði, sem sveitarfélögin gátu lagfært með breyttri framsetningu framkvæmdaleyfa með ítarlegri rökstuðningi. 

Hálendið á vinnusvæðinu fyrir norðan er snjólaust. Búið er að reisa 11 möstur Kröflulínu og 8 möstur Þeistareykjalínu af 193 möstrum á allri línuleiðinni.Mynd/Landsnet.
Fyrir tveimur vikum setti Landsnet framkvæmdir á fullt, og vantaði þá aðeins eitt leyfi fyrir sjö kílómetra kafla Þeistareykjalínu. Það leyfi fékkst frá Þingeyjarsveit í gær. 

Landsnet birti ljósmyndir frá lagningu Kröflulínu í gær en þær sýna snjólaust hálendið fyrir norðan. Einstök veðurblíða hjálpar þar til að vinna upp það vinnutap sem varð vegna framkvæmdabannsins, og þótt enn sé óútkljáð eignarnámsmál í landi Reykjahlíðar, ríkir nú bjartsýni um að áætlanir um afhendingu raforku til Bakka muni standast.


Tengdar fréttir

Ekki þörf á nýju umhverfismati fyrir Bakkalínur

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellst ekki á kæru Landverndar um að mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka sé úrelt eða forsendur fyrir því brostnar.

Framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Kröflulínu fellt úr gildi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála felldi ákvörðun Skútustaðahrepps um veitingu leyfisins úr gildi. Taldi hún að ekki hafi verið gætt skipulags- og náttúruverndarlaga við undirbúning og málsmeðferð ákvörðunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×