Innlent

Eliza með íslenskukennslu í kanadísku sjónvarpi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eliza og Guðni þegar Guðni tók við embætti forseta.
Eliza og Guðni þegar Guðni tók við embætti forseta. Vísir/Eyþór
Eliza Reid, forsetafrú Íslands, var á dögunum í heimalandi sínu Kanada. Þar kom hún fram í morgunþætti sjónvarpsstöðvarinnar City TV í Toronto þar sem hún ræddi samband sitt við eiginmann sinn, Guðna Th. Jóhannesson, hvernig hann varð forseti auk þess sem að hún var með létta íslenskukennslu fyrir áhorfendur.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi þótti þáttastjórnendum mjög mikið til koma að hafa fengið forsetafrú Íslands í myndver til sín og var hún spurð spjörunum úr um lífið á Íslandi og hvernig það væri að vera kominn aftur til Kanada.

Uppskar hún mikinn hlátur þegar hún sagðist hafa útskýrt fyrir íslenskum ferðafélögum sínum hvað „double-double“ væri en eftir því sem blaðamaður kemst næst er það kanadískt slangur yfir það að fá tvær skeiðar af sykri og tvöfaldan skammt af rjóma eða mjólk út í kaffið sitt.

Sjá einnig: Sonur Guðna og Elizu þegar hann sá forsetabílalestina í Nice: „Þurfum við að borga fyrir þetta?“

Þáttastjórnendur höfðu svo útbúið nokkur skilti með íslenskum frösum á borð við „Hvernig hefur þú það“ og „Verði þér að góðu“ og báðu þeir Elizu um að kenna sér að bera fram þessa frasa. Sagði Eliza að þetta væru gagnlegir frasar til að hafa á hreinu ef ferðast væri til Íslands. Bætti hún þó við einum til viðbótar.

„Vinur minn borgar er góður frasi til að kunna,“ sagði Eliza og uppskar aftur mikinn hlátur líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Hringt á heimili þeirra til að hvetja Guðna í framboð

Síðar í þættinum var Eliza sest í sófann þar sem gafst tími til að ræða hvernig hún hafi endað á Íslandi sem forsetafrú.

Þar sagði Eliza þá sögu sem hún hefur sagt áður um að Guðni hafi dregið nafn hennar úr bolla en að hún hafi verið búin að setja nafn sitt í flesta bollanna til að tryggja að hún myndi fá stefnumót með Guðna. Þá lýsti hún því hvernig hún varð forsetafrú.

„Hann var grandvar prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Á sama tíma og kosningabarátta fyrir forsetakosningarnar stóð yfir skullu Panama-skjölin á Íslandi og forsætisráðherrann sagði af sér. Guðni var álitsgjafi í sjónvarpi á meðan þetta gekk á og fólk fór að hringja heim til okkar og biðja hann um að bjóða sig fram.“

Sjá má viðtalið við Elizu í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×