Enski boltinn

Rangers sagði upp samningi Joey Barton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joey Barton.
Joey Barton. Vísir/Getty
Vandræðagemlingurinn Joey Barton hefur spilað sinn síðasta leik fyrir skoska félagið Rangers en félagið ákvað í dag að segja upp samningi sínum við leikmanninn.

Rangers tilkynnti um samningsrofið á Twitter-síðu sinni í dag og þar kom einnig fram að hvorki Rangers né Joey Barton muni tjá sig frekar um þetta mál. Barton var bara í 133 daga hjá Rangers en fær nú væntanlega ágætis starfslokasamning.

Það hefur gengið á ýmsu hjá Joey Barton í haust. Fyrst lenti hann í rifildi við liðsfélaga á æfingu sem kostaði hann agabann og svo var hann settur í annað lengra bann af skoska knattspyrnusambandinu fyrir að veðja á fótboltaleiki í Skotlandi.

Barton fékk í september sex vikna agabann hjá Rangers fyrir rifildi við liðsfélaga sinn Andy Halliday á æfingasvæði Rangers.

Áður en að Barton snéri til baka úr agabanninu var miðjumaðurinn ákærður fyrir að brjóta reglur um veðja á fótboltaleiki í Skotlandi en knattspyrnumenn í landinu mega það ekki.

Skoska knattspyrnusambandið sakaði Barton um að hafa ólöglega veðjað á 44 leiki frá 1. júlí til 15. september 2016.

Joey Barton er 34 ára gamall og á sínu fyrsta tímabili með Rangers. Hann náði að spila átta leiki með liðinu áður en allt fór í brjál og brand.

Baron hjálpaði Burnley að vinna sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og var meðal annars valinn í lið ársins. Hann gerði hinsvegar bara eins árs samning og hætti eftir tímabilið.

Barton gerði í staðinn tveggja ára samning við Rangers en sá samningur heyrir nú sögunni til eftir aðeins þrjá mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×