Innlent

Jón Valur ákærður fyrir hatursorðræðu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón Valur Jensson.
Jón Valur Jensson. Vísir/Hari
Guðfræðingurinn Jón Valur Jensson hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu vegna þriggja færslna sem birtust á bloggsíðu hans í apríl 2015. RÚV greindi fyrst frá.

Í ákærunni eru ummælin sögð fela í sér „háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra.“

Ummælin sem Jón Valur er ákærður vegna snúa öll að kynhneigð en færslurnar voru skrifaðar af tilefni umfjöllunar um hinsegin fræðslu Samtakana 78. Ummælin sem um ræðir birtust á bloggsíðu Jóns Vals 17., 20. og 21. apríl 2015.

Pétur Gunnlaugsson útvarpsmaður á Útvarpi Sögu hefur einnig verið ákærður vegna hatursorðræðu líkt og Vísir greindi frá í síðustu viku.

Alls hafa tíu ákærur verið gefnar út á þessu ári vegna hatursummæla. Málin eru reist á ákvæði númer 233 í hegningarlögum sem hljóðar svo:

„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Í samtali við RÚV segir Jón Valur að ákæran sé með öllu tilhæfulaus, ekkert í skrifum hans væri hægt að flokka sem hatursorðræðu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×