Erlent

Skautahöll lokað eftir að fiskar voru frystir í svellið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikil reiði braust út á samfélagsmiðlum í Japan.
Mikil reiði braust út á samfélagsmiðlum í Japan. Mynd/Twitter
Forsvarsmenn Space World skemmtigarðs í Kitakyushu í Japan hafa lokað nýopnaðri skautahöll sinni. Mikil reiði braust út eftir að í ljós kom að fiskar höfðu verið frystir í svellið til skrauts. BBC greinir frá.

Um fimm þúsund fiskar voru notaðir til verksins og að sögn talsmanna skemmtigarðsins voru eingöngu fiskar sem voru dauðir og óhæfir til átu notaðir til verksins.

Birtust myndir af skautasvellinu skrautlega á Facebook-síðu skemmtigarðsins en voru þær fljótlega teknar niður eftir að holskefla athugasemda barst um að ekki væri við hæfi að nota dauð dýr til þess að skreyta skemmtigarðinn.

Framkvæmdastjóri skemmtigarðsins hefur beðist afsökunar og segir að fiskarnir verði fjarlægðir fljótlega. Þá muni garðurinn einnig halda minningarathöfn til minningar um fiskana sem notaðir voru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×