Erlent

Kveikt í jólageitinni í Gävle sama dag og hún var sett upp

Anton Egilsson skrifar
Geitin logaði nokkrum tímum eftir að hún hafði verið sett upp.
Geitin logaði nokkrum tímum eftir að hún hafði verið sett upp. Skjáskot
Kveikt var í jólageitinni í bænum Gävle í Svíþjóð í dag, sama dag og hún var sett upp. Aftonbladet greinir frá þessu og birtir myndband af atvikinu.

Um er að ræða jólageitina í bænum en hún tilheyrir sænskri jólahefð sem kallast Gävlebocken. Gävle, borið fram sem Jevle, er bær í Svíþjóð. Geitin þar í bæ er sú frægasta en hún hlýtur oftast þau örlög að verða brennuvörgum að bráð. IKEA geitin sem við Íslendingar þekkjum á rætur sínar að rekja til Gävle.

Þetta er einnig mikið vandamál hér á landi en fyrr í mánuðinum greindi Vísir frá því að IKEA geitin hefði brunnið til ösku af völdum brennuvarga.

Geitin var sett upp seinni part dags í dag en rétt eftir klukkan ellefu að staðartíma bárust lögreglu þær upplýsingar að hún stæði í ljósum logum. Stendur nú yfir rannsókn á málinu.

„Við erum nú á fullu að  leita að sökudólgnum og eru til skoðunar vitni á vettvangi“ segir Matilda Isaksson, yfirmaður lögreglu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×