Innlent

Meirihlutinn í Fjallabyggð sprunginn vegna trúnaðarbrests

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá Siglufirði í Fjallabyggð.
Frá Siglufirði í Fjallabyggð. vísir/pjetur
Meirihluti Samfylkingarinnar og Fjallabyggðarlistans í Fjallabyggð er sprunginn. Þetta segir í tilkynningu sem Steinunn María Sveinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, sendi frá sér í gær.

Slitin eru sögð vegna trúnaðarbrests sem varð á milli oddvita Fjallabyggðarlistans og annarra bæjarfulltrúa meirihlutans.

„Jafnaðarmenn harma að til þessa hafi mátt koma en þakka því góða fólki sem stendur að Fjallabyggðarlistanum fyrir gott og árangursríkt samstarf,“ segir í tilkynningunni.

Aðspurð um fyrrnefndan trúnaðarbrest segir Steinunn María að hún muni ekki tjá sig um það. „Það verður á milli okkar,“ segir Steinunn María. Í sama streng tóku Sigríður Guðrún Hauksdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, Guðný Kristinsdóttir, varamaður Fjallabyggðarlistans og Nanna Árnadóttir varamaður Samfylkingar.

Í framhaldi þeirrar niðurstöðu að slíta samstarfinu hafa verið teknar upp viðræður á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um nýtt meirihlutasamstarf.„Ég er búin að boða til fundar í félaginu á morgun [í dag] og Sjálfstæðismenn eru búnir að ákveða að halda fund í fulltrúaráðinu sínu á morgun [í dag],“ segir Steinunn María.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann vissi ekki hvaða áhrif slitin hefðu á hans stöðu. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×