Erlent

Kynna nýjan stjórnarsáttmála í Danmörku

Atli Ísleifsson skrifar
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. Vísir/AFP
Íhaldsflokkurinn í Danmörku hefur samþykkt að taka þátt í myndun nýrrar þriggja flokka ríkisstjórnar með Frjálslynda bandalaginu og flokki forsætisráðherrans Lars Løkke Rasmussen, Venstre, sem hefur farið fyrir minnihlutastjórnar frá þingkosningunum á síðasta ári.

Formenn flokkanna þriggja hafa boðað til blaðamannafundar klukkan 14 að íslenskum tíma og er fastlega búist við að þar verði kynntur nýr stjórnarsáttmáli. DR greinir frá þessu.

Søren Pape Poulsen, formaður Íhaldsflokksins, greindi frá því fyrr í dag að þingmenn flokksins hefðu sammælst um þátttöku í slíkri stjórn.

Fulltrúar flokkanna þriggja hafa átt í viðræðum frá því að Rasmussen bauð stuðningsflokkunum tveimur til viðræðna þann 19. nóvember síðastliðinn.

Forsætisráðherrann hefur reynt að bjarga ríkisstjórn sinni með því að bjóða flokkunum tveimur ráðherrastóla til að koma í veg fyrir nýjar kosningar.

Anders Samuelsen, formaður Frjálslynda bandalagsins (Liberal Alliance), hefur lengi hótað því að sprengja ríkisstjórnina, verði hátekjuskattur í landinu ekki lækkaður um fimm prósentustig.

Nýja ríkisstjórnin verður áfram minnihlutastjórn og mun njóta stuðnings Danska þjóðarflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×