Formenn og fulltrúar fjögurra flokka mæta til Heimis Más Péturssonar fréttamanns í Víglínuna í beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20 í dag til að ræða stöðuna á vettvangi stjórnmálanna nú þegar stjórnarmyndunartilraunir hafa staðið yfir í mánuð.
Katrín Jakobsdóttir sem skilaði umboði sínu til forseta Íslands í gær mætir fyrst til leiks og fer yfir tilraun hennar til myndunar fimm flokka stjórnar frá vinstri fram yfir miðju og hvað tekur nú við.
Síðar bætast í hópin þau Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. Þau tóku öll þátt í tilraun Katrínar til myndunar ríkisstjórnar en misjafnar túlkanir hafa komið fram á því hvers vegna slitnaði upp úr viðræðunum.
Forseti Íslands veitti engum einum umboð til stjórnarmyndunar eftir að Katrín skilaði umboðinu í gær. Það er því frítt spil um stjórnarmyndun. Það er hins vegar spurning hvort fulltrúar flokkanna eru jafn bjartsýnir og forsetinn á að þessi leikur í stöðunni muni framkalla nýjan meirihluta á Alþingi á nokkrum dögum.
Allt þetta verður til umræðu í Víglínunni í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl 12:20.
Víglínan: Frítt spil við stjórnarmyndun í beinni
Atli Ísleifsson skrifar