Erlent

Breyttur friðarsamningur kynntur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jose Manuel Santos, forseti Kólumbíu, og Rodrigo „Timochenko“ Londono, leiðtogi FARC.
Jose Manuel Santos, forseti Kólumbíu, og Rodrigo „Timochenko“ Londono, leiðtogi FARC. Nordicphotos/AFP
Nýr friðarsamningur, sem Kólumbíustjórn hefur gert við FARC-skæruliðahreyfinguna, verður borinn undir þjóðþing landsins.

Ekki verður efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu að þessu sinni, en þjóðin hafnaði fyrri samningi í kosningu í byrjun október. Sá samningur varð engu að síður til þess að Juan Manuel Santos forseti og Rodrigo Londono, leiðtogi FARC, fá friðarverðlaun Nóbels þetta árið.

Nóbelsnefndin, sem tilkynnti um úthlutunina stuttu eftir að samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, segist hafa tekið þessa ákvörðun til að styðja við friðarferlið í von um að áfram yrði unnið að samningi.

Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á ákvæðum samningsins, en andstæðingar hans segja að sum af helstu gagnrýnisatriðunum eigi enn við. Þar á meðal er í samningnum enn þá ákvæði um að liðsmenn FARC geta tekið sæti á þingi, jafnvel þótt þeir hafi brotið landslög.

Fastlega er reiknað með því að þingið samþykki samninginn þegar hann verður tekinn fyrir.

Það gerist líklega í næstu viku, enda er stjórnin með öruggan meirihluta á þinginu.

Fréttin birtist fyrst í fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×