Innlent

Landvernd gleðst yfir áætlun um raflínulagnir

Sveinn Arnarsson skrifar
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Landvernd hrósar Landsneti fyrir kerfisáætlun fyrirtækisins. Segir félagið að ný kerfisáætlun sé til batnaðar. Landsneti ber á hverju ári að gefa út áætlun um þróun flutningskerfis raforku og framkvæmdir í náinni framtíð.

Að mati Landverndar er ánægjulegt að nýtingarflokkur rammaáætlunar er ekki lengur forsenda um þróun raforkuflutninga, jarðstrengir fá meira vægi og skoðaður er sá möguleiki að setja jarðstreng alla leið um Sprengisand. „Þessar breytingar eru allar í rétta átt og ber að fagna. Þær sýna að aðhald og athugasemdir almennings og umhverfisverndarsamtaka við eldri áætlanagerðir eru að skila árangri,“ segir í tilkynningu Landverndar.

„Við erum stolt af þeirri vinnu sem átti sér stað í undirbúningi nýrrar kerfisáætlunar. Áætlunin er með töluvert breyttu sniði frá síðustu áætlun,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. „Við höfum innleitt breytt ferli við undirbúning og gerð áætlunarinnar, meðal annars við skilgreiningu á grunnforsendum og vonandi skilar það sér í betri sátt um hana en áður.“

Steinunn segir afstöðu Landverndar til merkis um að vel hafi til tekist við kerfisáætlunina. „Við erum mjög ánægð með að Landvernd skuli sjá jákvæðar breytingar á kerfisáætluninni og þökkum fyrir hrósið. Við leggjum upp með að sátt ríki í samfélaginu um hlutverk Landsnets.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×