Enski boltinn

Viðtal við Sean Dyche: Jóhann Berg er enn að læra og bæta sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Burnley fær Manchester City í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á morgun.

Jóhann Berg Guðmundsson fær þar tækifæri til að reyna sig á móti lærisveinum Peps Guardiola sem eru af mörgum taldir líklegastir til að vinna Englandsmeistaratitilinn.

„Þetta er eitt af þessu stóru liðum. Við erum búnir að fá Liverpool hingað og núna er annar stórleikur. Þetta er frábært lið og þetta verður erfiður leikur. Við erum búnir að vera ágætir á heimavelli og vonandi heldur það áfram,“ sagði Jóhann Berg í samtali við Hjörvar Hafliðason.

Jóhann Berg hefur leikið alla tólf deildarleiki Burnley á tímabilinu.vísir/getty
Jóhann Berg hefur byrjað síðustu átta leiki Burnley í ensku úrvalsdeildinni og skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í 3-2 sigri á Crystal Palace á dögunum.

„Mér finnst ég hafa komið nokkuð vel inn í þetta. Ég náði mínu fyrsta marki og hef lagt einhver upp. Þetta hefur gengið mjög vel og er vonandi það sem koma skal,“ sagði íslenski landsliðsmaðurinn.

Hjörvar hitti Sean Dyche, knattspyrnustjóra Burnley, einnig að máli. Dyche hafði fylgst lengi með Jóhanni Berg áður en hann keypti hann til Burnley.

„Jafnvel þótt hann hafi verið í liði [Charlton] sem féll var hann duglegur að leggja upp mörk og skoraði einnig nokkur góð sjálfur,“ sagði Dyche.

„Á Evrópumótinu sýndi hann, og allt íslenska liðið, mikla vinnusemi. Við vissum hversu góður hann er með boltann. Hann býr yfir eiginleikum sem við vorum að leita að og hann passar inn í félagið. Hann er enn að læra og bæta sig.“

Dyche segir að Jóhann Berg verði alltaf betri og betri eftir því sem hann spilar fleiri leiki.

„Hann hefur staðið sig vel. Hann fór rólega af stað og við notuðum hann ekki mikið í upphafi. Hann var bara að venjast úrvalsdeildinni og lífinu hérna,“ sagði Dyche sem spilaði á sínum tíma með Heiðari Helgusyni og Brynjari Birni Gunnarssyni hjá Watford.

„Heiðar var frábær leikmaður, ég naut þess að spila með honum og hann var algjör stríðsmaður. Ég heyri reglulega í honum. Brynjar var líka með okkur,“ sagði Dyche sem er hrifinn af hugarfari íslenskra leikmanna.

Fréttina má sjá í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×