Erlent

Fillon hafði betur gegn Juppé í sjónvarpskappræðum

Atli Ísleifsson skrifar
François Fillon og Alain Juppé.
François Fillon og Alain Juppé. Vísir/AFP
François Fillon er talinn hafa haft betur í sjónvarpskappræðum hans og Alain Juppé í gærkvöldi. Þeir Fillon og Juppé berjast nú um hvor þeirra verði forsetaefni Repúblikana í frönsku forsetakosningunum sem fram fara næsta vor.

Repúblikanar munu velja forsetaframbjóðanda sinn á sunnudag, en Fillon hlaut 44,2 prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna, Juppé 28,4 prósent og forsetinn fyrrverandi, Nicolas Sarkozy, 20,7 prósent. Litlu munaði að Fillon næði 50 prósent atkvæða sem hefði gert síðari umferðina óþarfa.

Niðurstaðan kom nokkuð á óvart þar sem hinn 71 árs Juppé hafði lengi verið talinn langlíklegastur til að verða fyrir valinu. Fillon, 62 ára landaði þó nokkuð öruggum sigri í fyrri umferðinni þegar upp var staðið.

„Alain Juppé vill í raun engar breytingar. Hann vill viðhalda kerfinu og einungis bæta það. Verkefni mitt er rótttækara,“ sagði Fillon í kappræðunum í gær.

Fillon er mikill aðdáandi fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Margaret Thatcher, og segir Juppé að hugmyndir Fillon um niðurskurð í hinum opinbera geira vera óraunhæfar.

Juppé er borgarstjóri Bordeaux og gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 1995 til 1997. Fillon var forsætisráðherra Frakklands á árunum 2007 til 2012.

Forsetakosningar fara fram í Frakklandi næsta vor og benda skoðanakannanir til að forsetaefni Repúblikana muni kljást við Marine Le Pen, leiðtoga Front National, í síðari umferð kosninganna. Sósíalistar munu velja sitt forsetaefni í janúar, en sósíalistinn Francois Hollande Frakklandsforseti hefur enn ekki lýst því yfir hvort hann sækist eftir endurkjöri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×