Erlent

Erdogan hótar ESB að galopna landamærin

Atli Ísleifsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Vísir/EPA
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir að Evrópusambandið muni ekki hræða kjark úr honum, en sambandið hefur lýst yfir miklum áhyggjum af gangi mála í landinu.

Erdogan hefur nú hótað því að galopna landamæri Tyrklands fyrir flóttafólki. Hótun Erdogan kemur degi eftir að Evrópuþingið hvatti framkvæmdastjórn ESB til að tímabundið stöðva aðildarviðræður Tyrklands að sambandinu.

„Hlustið nú vandlega. Ef þið haldið þessu áfram verða landamærin opnuð. Hvorki ég né mitt fólk munum sitja undir þessum hótunum,“ sagði Erdogan í ræðu sem hann flutti í Istanbul í morgun.

Mikill fjöldi sýrlenskra flóttamanna dvelja nú í Tyrklandi. Tyrklandsstjórn og ESB gerðu á síðasta ári samning sem miðar að því að stöðva straum flóttafólks frá Tyrklandi og inn í aðildarríki ESB.

Þrátt fyrir atkvæðagreiðslu gærdagsins á Evrópuþinginu er ekki mikill áhugi innan framkvæmdastjórnar ESB að loka á viðræður við Tyrki. „Besta og skilvirkasta leiðin til að efla lýðræði í Tyrklandi er að eiga við þá samtal og ekki loka dyrum,“ sagði utanríkismálastjórinn Federica Mogherini í gær.

Allt frá því í upp komst um valdaránstilraun í sumar hefur Tyrklandsstjórn hreinsað til í stjórnkerfinu, menntakerfinum, hernum og lögreglunni. Þannig hafa um 120 þúsund manns ýmist verið vikið frá störfum, ýmist tímabundið eða varanlega. Þá hefur Erdogan lýst yfir áhuga á að taka upp dauðarefsingu í landinu að nýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×