Ókyrrð við fjörðinn Friðrika Benónýsdóttir skrifar 25. nóvember 2016 11:30 Bækur Utan þjónustusvæðis – krónika Ásdís Thoroddsen Útgefandi: Sæmundur 2016 Fjöldi síðna: 363. Fyrsta skáldsaga Ásdísar Thoroddsen, Utan þjónustusvæðis – krónika, lýsir lífinu í afskekktum firði einn vetur í aðdraganda hruns. Þar lifa gamlar íslenskar hefðir, eins og nágrannaerjur, baktal um náungann, þöggun og óþol gagnvart því sem er öðruvísi, góðu lífi og samfélag sveitarinnar lætur nútímann ekki komast upp með neinn moðreyk. Allir eru tengdir eða skyldir öllum og nánast ógjörningur fyrir utanaðkomandi fólk að komast inn í samfélag innfæddra, jafnvel eftir tuttugu ára búsetu í hreppnum. Miðpunktur og söguhetja Utan þjónustusvæðis er Heiður, sambýliskona skólastjórans, kennari án réttinda, kona með fortíð og dálítið vafasama nútíð, en ekki síst óþægilegar skoðanir og attitjúd. Eins og gefur að skilja á hún sér ekki uppreisnar von í þessu lokaða samfélagi og hverfist sagan að miklu leyti um það hvernig sveitungunum tekst að hrekja hana á brott. Fleiri utangarðsmenn koma við sögu, hópur Pólverja er sestur að í firðinum til að vinna í fiskvinnslu, á heimili Heiðar og Kristjáns skólastjóra er í nauðungarvist vandræðaunglingur að sunnan og um sveitina ráfar drykkjukonan Kristín í misannarlegu ástandi. Á móti þessum aðkomumönnum sem eru hreyfiafl sögunnar teflir Ásdís rótgrónum sveitungum, mektarmönnum og staffírugum frúm og úr verður heiftarleg togstreita þar sem hefðin og forpokunin reyna að kæfa nýgræðinginn. Sagan er dálítið rysjótt í stíl og frásagnartækni, stórgóð þegar hún rís hæst en dálítið flöt og ófullgerð í nokkrum lægðum. Málfarið er kjarnyrt og hefðbundið, nánast um of og virka samtölin stundum eins og afturgöngur úr skáldsögum fyrri tíma, en það er kannski með ráðum gert. Höfundi liggur heilmikið á hjarta og kemur því röggsamlega til skila; einangrun og einsýni eru af hinu illa og samfélag sem ekki er opið fyrir nýjum áherslum og hugsunarhætti er dauðadæmt. Sterkasti þráður sögunnar er þó kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og þöggunin um það; alla grunar, allir hafa heyrt en enginn gerir neitt. Þess í stað eru magnaðar upp kjaftasögur um staðlausa stafi og pínulitlar fjaðrir gerðar að fimm hænum á augabragði. Annar sterkur undirtónn sögunnar eru þjóðsagnavísanir og minni, einkum í sögur af skessum sem táldraga menn og breyta þeim í tröll og ungum fögrum stúlkum sem ekki eiga annan kost en að ganga í björg. Þær sögur endurspeglast í nútíma frásagnarinnar á áhrifamikinn og eftirminnilegan máta. Raunar má segja að hér sé öll saga íslenskra sveita til grundvallar og þá um leið saga þjóðarinnar sem eitt sinn var svo einangruð. Ásdís er kvikmyndagerðarkona og þess sér stað í lýsingum hennar og myndrænni byggingu sögunnar á mjög jákvæðan hátt, en stundum er það þó til trafala þegar áherslan liggur of þungt á að sýna persónur og sögusvið utan frá í stað þess að kíkja í huga þeirra og tilfinningalíf. Að öllu samanlögðu er þó Utan þjónustusvæðis hin skemmtilegasta lesning og vekur til umhugsunar um margt sem ekki fer hátt í almennri umræðu.Niðurstaða: Skemmtileg og á köflum áhrifarík skáldsaga sem tekur á viðkvæmum málum. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. nóvember 2016. Bókmenntir Menning Mest lesið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Prinsinn kom á undan Kónginum Lífið Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Lífið Hinn eini sanni konungur mættur í bíó Lífið samstarf Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Bækur Utan þjónustusvæðis – krónika Ásdís Thoroddsen Útgefandi: Sæmundur 2016 Fjöldi síðna: 363. Fyrsta skáldsaga Ásdísar Thoroddsen, Utan þjónustusvæðis – krónika, lýsir lífinu í afskekktum firði einn vetur í aðdraganda hruns. Þar lifa gamlar íslenskar hefðir, eins og nágrannaerjur, baktal um náungann, þöggun og óþol gagnvart því sem er öðruvísi, góðu lífi og samfélag sveitarinnar lætur nútímann ekki komast upp með neinn moðreyk. Allir eru tengdir eða skyldir öllum og nánast ógjörningur fyrir utanaðkomandi fólk að komast inn í samfélag innfæddra, jafnvel eftir tuttugu ára búsetu í hreppnum. Miðpunktur og söguhetja Utan þjónustusvæðis er Heiður, sambýliskona skólastjórans, kennari án réttinda, kona með fortíð og dálítið vafasama nútíð, en ekki síst óþægilegar skoðanir og attitjúd. Eins og gefur að skilja á hún sér ekki uppreisnar von í þessu lokaða samfélagi og hverfist sagan að miklu leyti um það hvernig sveitungunum tekst að hrekja hana á brott. Fleiri utangarðsmenn koma við sögu, hópur Pólverja er sestur að í firðinum til að vinna í fiskvinnslu, á heimili Heiðar og Kristjáns skólastjóra er í nauðungarvist vandræðaunglingur að sunnan og um sveitina ráfar drykkjukonan Kristín í misannarlegu ástandi. Á móti þessum aðkomumönnum sem eru hreyfiafl sögunnar teflir Ásdís rótgrónum sveitungum, mektarmönnum og staffírugum frúm og úr verður heiftarleg togstreita þar sem hefðin og forpokunin reyna að kæfa nýgræðinginn. Sagan er dálítið rysjótt í stíl og frásagnartækni, stórgóð þegar hún rís hæst en dálítið flöt og ófullgerð í nokkrum lægðum. Málfarið er kjarnyrt og hefðbundið, nánast um of og virka samtölin stundum eins og afturgöngur úr skáldsögum fyrri tíma, en það er kannski með ráðum gert. Höfundi liggur heilmikið á hjarta og kemur því röggsamlega til skila; einangrun og einsýni eru af hinu illa og samfélag sem ekki er opið fyrir nýjum áherslum og hugsunarhætti er dauðadæmt. Sterkasti þráður sögunnar er þó kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og þöggunin um það; alla grunar, allir hafa heyrt en enginn gerir neitt. Þess í stað eru magnaðar upp kjaftasögur um staðlausa stafi og pínulitlar fjaðrir gerðar að fimm hænum á augabragði. Annar sterkur undirtónn sögunnar eru þjóðsagnavísanir og minni, einkum í sögur af skessum sem táldraga menn og breyta þeim í tröll og ungum fögrum stúlkum sem ekki eiga annan kost en að ganga í björg. Þær sögur endurspeglast í nútíma frásagnarinnar á áhrifamikinn og eftirminnilegan máta. Raunar má segja að hér sé öll saga íslenskra sveita til grundvallar og þá um leið saga þjóðarinnar sem eitt sinn var svo einangruð. Ásdís er kvikmyndagerðarkona og þess sér stað í lýsingum hennar og myndrænni byggingu sögunnar á mjög jákvæðan hátt, en stundum er það þó til trafala þegar áherslan liggur of þungt á að sýna persónur og sögusvið utan frá í stað þess að kíkja í huga þeirra og tilfinningalíf. Að öllu samanlögðu er þó Utan þjónustusvæðis hin skemmtilegasta lesning og vekur til umhugsunar um margt sem ekki fer hátt í almennri umræðu.Niðurstaða: Skemmtileg og á köflum áhrifarík skáldsaga sem tekur á viðkvæmum málum. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. nóvember 2016.
Bókmenntir Menning Mest lesið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Prinsinn kom á undan Kónginum Lífið Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Lífið Hinn eini sanni konungur mættur í bíó Lífið samstarf Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira