Viðskipti innlent

Akureyrarbær skipar í fjórar stöður sviðsstjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðhús Akureryrarbæjar.
Ráðhús Akureryrarbæjar. Mynd/Akureyrarbær
Búið er að ráða í fjórar stöður sviðsstjóra hjá Akureyrarbæ en nýtt skipurit bæjarins tekur gildi um áramót. Með breytingunum verða lögð niður átta störf framkvæmdastjóra deilda.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri lagði til við bæjarráð í gær að gengið verði til samninga við Dan J. Brynjarsson um starf sviðsstjóra fjársýslusviðs, Kristin J. Reimarsson um starf sviðsstjóra samfélagssviðs, Höllu Margréti Tryggvadóttur um starf sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og Guðríði Friðriksdóttur um starf sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs.

Alls sóttu 45 manns um störfin fjögur en í tilkynningu segir að tilgangur breytinganna sé að laga stjórnsýslu bæjarins að breyttum tímum og ná fram aukinni skilvirkni til hagsbóta fyrir bæjarbúa. „Stærsta breytingin felur í sér sameiningu nefnda og fækkun stjórnunareininga með því að sameina deildir með skylda starfsemi.“

Nánar er fjallað um ráðningarnar á vef Akureyrarbæjar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×