Innlent

Réttað yfir tveimur vegna alvarlegrar líkamsárásar á Raufarhöfn

Sveinn Arnarsson skrifar
Fórnarlambið vissi ekki eftir árásina hverjir réðust á hann. Myndin er sviðsett.
Fórnarlambið vissi ekki eftir árásina hverjir réðust á hann. Myndin er sviðsett. Vísir/Stefán
Aðalmeðferð gegn tveimur karlmönnum á þrítugsaldri fór fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra í vikunni. Er þeim gefið að sök að hafa slegið mann í andlitið um sjómannadagshelgi á Raufarhöfn, sem og að hafa ítrekað sparkað í höfuð hans, bak og síðu. Hlaut hann við það höfuðkúpubrot, rifbeinsbrot og þrír hryggjarliðir brotnuðu einnig.

Við aðalmeðferð málsins gat fórnar­lamb árásarinnar ekki gert nægilega grein fyrir því hverjir það voru nákvæmlega sem gengu í skrokk á honum og lýsti hann því sem svo að hann hafi ekki fengið spark í höfuðið líkt og ákæran gefur til kynna.

Við aðalmeðferðina var lögð fyrir fórnarlambið lögregluskýrsla sem tekin var af honum tveimur dögum eftir árásina. Þar kemur fram að hann hafi á þeim tímapunkti ekki vitað hverjir það voru sem réðust á hann.

Magnús Davíð Norðdahl, verjandi annars mannsins, segir ekkert þeirra fjórtán vitna sem lögreglan ræddi við hafa sagt þá ákærðu hafa ráðist á fórnarlambið. Ekkert hafi komið fram við aðalmeðferð sem breyti sönnunarstöðu í málinu.

„Í máli þessu hefði aldrei átt að ákæra enda ekkert í gögnum málsins sem rennir stoðum undir sekt umbjóðanda míns né meðákærða,“ segir Magnús.

„Í fyrsta lagi er framburður brotaþola við skýrslutöku hjá lögreglu mjög óskýr. Þá spyr lögreglan ítrekað leiðandi spurninga og virðist jafnframt fullyrða við brotaþola að tilteknir nafngreindir aðilar hafi ráðist á hann. Þessi vinnubrögð lögreglu eru ámælisverð og rannsóknarefni út af fyrir sig. Það er með öllu óásættanlegt í réttarríki að einstaklingar séu ákærðir á veikum grunni og hvað þá heldur sakfelldir.“

Mennirnir tveir sem ákærðir eru hafa aldrei hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot áður.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×