Erlent

Konum á flótta komið til hjálpar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hópur kvenna og barna notaði tækifærið til að flýja þegar hlé varð á átökum íraskra sérsveita við vígamenn Íslamska ríkisins í Mosúl fyrr í mánuðinum.
Hópur kvenna og barna notaði tækifærið til að flýja þegar hlé varð á átökum íraskra sérsveita við vígamenn Íslamska ríkisins í Mosúl fyrr í mánuðinum. Nordicphotos/AFP
Rúmur mánuður er síðan íraski herinn hóf ásamt hersveitum Kúrda sókn sína gegn vígasveitum Íslamska ríkisins svonefnda í Mosúl. Nærri sjötíu þúsund manns hafa flúið átökin og margir þeirra leitað á náðir hjálparstofnana sem hafa sett upp flóttamannabúðir á nálægum svæðum.

Frá því vígasamtökin náðu Mosúl og nágrenni á sitt vald, fyrir meira en tveimur árum, hafa hundruð þúsunda manna flosnað upp af heimilum sínum og eru á vergangi.

Vígamennirnir eru á undanhaldi
Allan þennan tíma hafa konur á þessum slóðum verið einangraðar og mátt þola gróft ofbeldi. Margar þeirra hafa verið teknar í gíslingu og notaðar sem kynlífsþrælar, en margar hafa horfið sporlaust.

Þessar konur flýja nú borgina og eru allslausar. Samtökin UN Women á Íslandi efna af þeim sökum til neyðarsöfnunar fyrir konur í Írak.„Konur í Mosúl eru í hræðilegri stöðu,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

„Þær hafa verið innilokaðar heima hjá sér undanfarin tvö ár og hvorki mátt eiga né nota síma, snjallsíma, internet, horfa á sjónvarp né eiga í samskiptum við umheiminn á nokkurn hátt. Þær hafa verið sviptar lífsviðurværi sínu, reisn sinni og valdi yfir eigin lífi.“

Hún hvetur Íslendinga til að taka þátt í söfnuninni með því að senda sms-ið KONUR í 1900. Það kostar 1.490 krónur og verður andvirðið notað til þess að útvega konum í Írak svonefnd sæmdarsett, en þau innihalda dömubindi, sápu og vasaljós.

Sæmdarsetti frá UN Women komið til konu í Írak.Mynd/UN Women
„Neyðin er gífurleg,“ segir Inga Dóra. „Nú er mikilvægara en nokkru sinni að hlúa að þessum hópi.“

UN Women hafa sett á fót sérstaka griðastaði í búðum suðaustur af Mosúl. Samtökin tryggja að þar sé veitt kvenmiðuð neyðaraðstoð þar sem tekið er tillit til þarfa kvenna á svæðinu.

Inga Dóra segir að þar sé konum veitt áfallahjálp vegna kynferðis­ofbeldis. Þær fái sálrænan stuðning, vernd og öryggi.

„Fyrsta skrefið er að veita þeim sæmdarsett með helstu nauðsynjum sem gera konum kleift að halda í virðingu sína. Aftur á móti skortir fjármagn til að geta brugðist við neyðinni og haldið því áfram,“ segir hún.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×