Erlent

Liðsmenn vígasamtakanna sagðir hefna sín á almenningi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Konur og börn á flotta frá Mosúl, nýkomin yfir brú á ánni Tigris.
Konur og börn á flotta frá Mosúl, nýkomin yfir brú á ánni Tigris. Nordicphotos/AFP
Sameinuðu þjóðirnar eru meðal þeirra sem varað hafa við mikilli neyð meðal almennings vegna átakanna í Mosúl. Þar í borg bjuggu eitthvað á aðra milljón manna þegar vígamennirnir náðu henni á sitt vald.

Hundruð þúsunda manna eru á vergangi á þessum slóðum og tugir þúsunda hafa flúið síðan átökin hófust fyrir meira en mánuði.

Borgin er nú umkringd og hjálparsamtök óttast að átökin muni dragast mjög á langinn, með tilheyrandi eymd fram á vor.

Flóttafólk frá Mosúl segir vígamennina óspart láta reiði sína og vonbrigði bitna á íbúum borgarinnar.

„Íslamska ríkið er vísvitandi að beina spjótum sínum að almennum borgurum. Skotið er beint á fólk,“ segir Lisa Grande, sem er yfirmaður mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Írak, samkvæmt frásögn í The New York Times.

„Tugir manna, þar á meðal ung börn og konur, koma á hverjum degi á sjúkrahúsin. Sár þeirra eru skelfileg. Hinir særðu ferðast klukkutímum saman til að fá almennilega meðferð.“

Hún segir engan vafa leika á því að mannfall meðal almennra borgara muni aukast mikið ef íraski herinn fer að beita þungavopnum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×