Erlent

Enginn Íslendingur til rannsóknar í stærsta barnaníðingsmáli í sögu Noregs

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsókn norsku lögregunnar hófst í janúar eftir að hún fékk ábendingu frá bandarísku alríkislögreglunni FBI.
Rannsókn norsku lögregunnar hófst í janúar eftir að hún fékk ábendingu frá bandarísku alríkislögreglunni FBI. Mynd/Af fréttamannafundi norsku lögreglunnar
Enginn Íslendingur er til rannsóknar í stærsta barnaníðingsmáli sem komið hefur inn á borð lögreglunnar í Noregi. Þetta kemur fram í svari lögreglunnar í Hörðalandi við fyrirspurn Vísis.

Alls hafa ákærur verið gefnar út gegn 51 manni í málinu sem hefur gengið undir nafninu „Operation Dark Room“. Talið er að fleiri verði handteknir þegar fram í sækir.

Hilde Reikrås, sem stýrði aðgerðum lögreglu í málinu, sagði á fréttamannafundi á sunnudag að níðingsverkin hafi verið framkvæmd gegn börnum á öllum aldri, allt niður í ungabörn. Hún kom jafnframt með dæmi um þau skelfilegu brot sem börnin urðu fyrir.

Lögregla lagði hald á alls um 150 terabætum af gögnum, þar á meðal myndir, myndskeið og afrit af netspjalli barnaníðinga.

Tuttugu af þeim 51 manni sem voru handteknir voru handsamaðir í Vesturlandsumdæmi norsku lögreglunnar, en 31 í öðrum umdæmum. Þá er einn maður á erlendri grundu til rannsóknar. Allir hinir handteknu eru karlmenn.

Reikrås lagði áherslu á að aðgerðin sneri ekki einungis að einum barnaníðingshring, heldur nokkrum. Ljóst sé að meðal níðinganna séu einhverjir með mikla menntun eða reynslu af tölvumálum, þar sem mikið hefur verið lagt í kóðun og fleira til að fela sporin.

Reikrås tók á fréttamannafundinum dæmi um að einn hinna handteknu væri með barnshafandi konu og rætt við aðra níðinga að brjóta á barninu þegar það kæmi í heiminn. Sumir níðinganna höfðu streymt brot sín, oft á eigin börnum, í beinni útsendingu á lokuðu netsvæði.

Á meðal hinna handteknu eru tveir kjörnir fulltrúar, kennari og lögfræðingur.

Rannsókn norsku lögregunnar hófst í janúar eftir að hún fékk ábendingu frá bandarísku alríkislögreglunni FBI.

Níðingarnir eiga yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×