Enski boltinn

Regnbogareimar til stuðnings við hinsegin fólk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Regnbogalitaðar skóreimar gætu sést í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Regnbogalitaðar skóreimar gætu sést í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Vísir/Getty
Richard Scudamore, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, segir að deildin leggi blessun sína yfir og styðji notkun regnbogareima.

Regnbogalitaðar skóreimar hafa verið notaðar af íþróttafólki víða um heim til stuðnings við réttindabaráttu hinsegin fólks og mun átakið ná inn í ensku úrvalsdeildina um helgina.

„Við vitum að við getum gert meira til að nota anda og kraft knattspyrnunnar inni á vellinum til góða,“ sagði Scudamore í yfirlýsingu deildarinnar. Guardian fjallaði um málið.

Sjá einnig: Stór meirihluti yrði sáttur við homma í sínu liði

Líklegt er að regnbogalitirnir verði áberandi um helgina, ekki aðeins í skóreimum knattspyrnumannanna, heldur hefur verið boðað mikið átak á samfélagsmiðlum deildarinnar sem og félaganna sjálfra.

Margsinnis hefur verið fjallað um þá staðreynd hversu fáir íþróttamenn hafa komið úr skápnum og þá sérstaklega atvinnumenn í knattspyrnu.

Greg Clarke, stjórnarformaður enska knattspyrnusambandsins, varaði í síðasta mánuði samkynhneigða knattspyrnumenn við því að koma úr skápnum.

Sjá einnig: Varar knattspyrnumenn við að koma úr skápnum

„Ég hika við það að hvetja fólk til að koma úr skápnum þar til að okkur hefur tekist að vinna okkar vinnu og útrýma svívirðingum og úthúðunum,“ sagði Clarke þegar hann kom fyrir þingnefnd í Bretlandi.

„Ég skammast mín fyrir þá staðreynd að þeir finnst ekki öruggt að koma úr skápnum,“ bætti hann við.

Justin Fashanu kom fyrstur atvinnumanna í knattspyrnu úr skápnum í Englandi árið 1990 en hann framdi sjálfsvíg árið 1998. Enginn leikmaður hefur síðan þá komið úr skápnum á meðan hann hefur spilað í Englandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×