Erlent

Bólusetja 40 milljónir barna

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Sjálfboðaliðinn Aisha Bulama bólusetur lítið barn í Borno í Nígeríu gegn mænusótt. Bólusetja á 41 milljón barna til að koma í veg fyrir faraldur.
Sjálfboðaliðinn Aisha Bulama bólusetur lítið barn í Borno í Nígeríu gegn mænusótt. Bólusetja á 41 milljón barna til að koma í veg fyrir faraldur. MYND/UNICEF
Yfir 12 milljónir króna hafa safnast í neyðarsöfnun UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hér á landi vegna vannærðra barna í Nígeríu. Undanfarna mánuði hafa rúmlega 131 þúsund börn fengið meðferð gegn vannæringu þar sem ástandið er verst. Neyðarsöfnunin er enn í fullum gangi og hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr.).

Yfir 40 milljónir barna í Nígeríu verða bólusett gegn mænusótt í átaki á vegum UNICEF og samstarfsaðila sem nú stendur yfir. Þrjú mænusóttartilfelli komu upp í norðausturhluta landsins þar sem mörg hundruð þúsund börn eru í lífshættu vegna vannæringar.

Nígería er eina landið í Afríku þar sem ekki hefur tekist að útrýma mænusótt. Ekki hafði orðið vart við mænusótt í tvö ár þegar tilfellin þrjú komu upp, að því er segir í fréttatilkynningu frá UNICEF. Ríki er talið laust við sjúkdóminn þegar engin tilfelli hafa greinst þar í þrjú ár.

Um leið og börnin í Borno-héraði í Nígeríu eru bólusett eru þau skimuð fyrir vannæringu og vísað í meðferð við henni ef þörf krefur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×