Erlent

Sarkozy tapaði fyrir Fillon og Juppé

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nicolas Sarkozy var forsætisráðherra Frakklands í fimm ár, frá 2007 til 2012, en hefur misst af tækifærinu til endurkomu á næsta ári.
Nicolas Sarkozy var forsætisráðherra Frakklands í fimm ár, frá 2007 til 2012, en hefur misst af tækifærinu til endurkomu á næsta ári. vísir/epa
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseti, verður ekki í framboði til forseta Frakklands þegar kosningar verða haldnar næsta vor.

Hann fékk ekki nógu mörg atkvæði í forvali flokks Lýðveldissinna, sem haldið var um helgina. Lýðveldissinnar eru stærsti flokkur hægri manna á franska þinginu, arftakar UMP-flokksins sem skipti um nafn á síðasta ári.

Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar, þeir François Fillon og Alain Juppé, urðu efstir í forvalinu en þar sem hvorugur þeirra hlaut hreinan meirihluta verður kosið á milli þeirra í annarri umferð á sunnudaginn kemur.

Fyrirfram hafði verið búist við því að Sarkozy ætti góða möguleika, en mikið fylgi Fillons kom á óvart. Juppé hafði verið efstur í skoðanakönnunum og Sarkozy næstur.

Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, hefur síðan mælst með vaxandi fylgi í skoðanakönnunum undanfarið. Fyrir helgi birtust fjórar skoðanakannanir, sem allar sýndu að hún ætti mun betri möguleika en Sarkozy í forsetakosningunum.

Það yrði þá í fyrsta sinn sem Frakkar kysu forseta úr röðum hægri þjóðernissinna. Hún fékk hins vegar þriðja mesta fylgið í forsetakosningum árið 2012, næst á eftir Sarkozy og François Hollande, sem sigraði.

Juppé ætti hins vegar samkvæmt skoðanakönnunum betri möguleika gegn Le Pen í þetta sinn.

Fyrri umferð forsetakosninganna verður haldin 23. apríl. Hljóti enginn frambjóðenda hreinan meirihluta þá verður efnt til annarrar umferðar hinn 7. maí.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×