Enski boltinn

Þrír Skotar á skotskónum þegar West Brom rúllaði yfir Jóhann Berg og félaga | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
West Brom fór illa með Burnley þegar liðin mættust á The Hawthornes í lokaleik 12. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Lokatölur 4-0, West Brom í vil.

Jóhann Berg Guðmundsson var á sínum stað í byrjunarliði Burnley og lék fyrstu 79 mínútur leiksins.

Heimamenn voru miklu sterkari aðilinn í leiknum og eftir 37 mínútna leik var staðan orðin 3-0. West Brom bætti svo einu marki við í seinni hálfleik og 4-0 sigur staðreynd.

Matt Philipps kom West Brom yfir strax á 4. mínútu eftir klaufagang í vörn Burnley. Gestirnir voru meira með boltann eftir þetta en heimamenn voru stórhættulegir í skyndisóknum. Eftir eina slíka skoraði James Morrison annað mark West Brom á 16. mínútu.

Þriðji Skotinn komst svo á blað þegar Darren Fletcher skoraði af stuttu færi á 37. mínútu eftir fyrirgjöf Philipps.

Staðan var 3-0 í hálfleik og allt fram á 64. mínútu þegar besti maður vallarins, Salomón Rondón, skoraði fjórða og síðasta mark leiksins.

Jóhann Berg átti tvö ágætis skot í seinni hálfleik sem Ben Foster, markvörður West Brom, varði.

Með sigrinum fór West Brom upp í 9. sæti deildarinnar. Burnley er í því tólfta en liðið hefur ekki enn unnið útileik á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×