Erlent

Páfinn endurnýjar leyfi kaþólskra presta til þess að fyrirgefa fóstureyðingar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frans páfi þykir hafa mildað íhaldssemi kirkjunnar.
Frans páfi þykir hafa mildað íhaldssemi kirkjunnar. vísir/getty
Frans páfi hefur ákveðið að endurnýja leyfi kaþólskra presta til þess að fyrirgefa fóstureyðingar. Þetta tilkynnti hann í dag með sérstöku bréfi og kemur fram í frétt CNN. Í bréfinu tekur hann fram að þó fóstureyðing sé alvarleg synd sem bindi endi á saklaust líf sé engin synd til sem miskunn Guðs geti ekki náð yfir.

Kaþólska kirkjan hefur lengi haldið þeirri skoðun á lofti að fóstureyðingar beri að flokka undir alvarlega illsku en páfinn tilkynnti á síðasta ári að prestar kirkjunnar um allan heim skyldu nú fá leyfi til þess að fyrirgefa syndina. Tilefnið var nýtt kirkjuár sem titlað var „Ár miskunnar“ þar sem áhersla er á að trúariðkendur geti vænst meiri miskunnar fyrir syndir sínar, en því lauk þann 20. nóvember síðastliðinn.

Vegna ákvörðunar páfans geta konur sem farið hafa í fóstureyðingu vænst þess áfram að fá fyrirgefningu fyrir synd sína hjá kaþólskum prestum en páfinn þykir hafa mildað íhaldssemi kirkjunnar í mörgum málum.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×