Erlent

Julian Assange tjáir sig í fyrsta skipti um nauðgunarásakanir

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Julian Assange í sendiráði Ekvador í London.
Julian Assange í sendiráði Ekvador í London. Vísir/EPA
Julian Assange fullyrðir að hann sé algjörlega saklaus af ásökunum tveggja sænskra kvenna um að hann hafi nauðgað þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Assange sem birtist á Twitter síðu Wikileaks í dag. 

Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í London síðastliðin fjögur ár vegna ásakananna, en handtökuskipun var gefin út á hendur honum.  Hann gagnrýnir meðferðina á sér og segir að nú vilji hann að almenningur viti sannleikann.

Assange heldur því fram að rannsókn lögregluyfirvalda á málinu haldist í beinar hendur við þátttöku hans í starfsemi uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks og sé til þess fólgin til að hefta ferðafrelsi og skaða orðspor hans.

Taldi þetta vera kynmök en ekki nauðgun

Í yfirlýsingunni frá Assange lýsir hann því sem átti sér stað á milli hans og sænsku konunnar sem hann nefnir „SW.“ Assange heldur því fram að um eðlileg kynmök hafi verið um að ræða, sem hafi átt sér stað með samþykki beggja aðila.

Fram hefur komið að viðkomandi kona hefur sagt frá því að hún hafi verið sofandi þegar umrætt atvik átti sér stað.

Assange segir hinsvegar að hann hafi verið viss um að hún hafi verið með fullri rænu. Hann hafi einnig verið viss um að hún hafi veitt samþykki fyrir kynmökum og vísaði hann þar til smáskilaboða sem konan hafi sent honum.

Hann gagnrýnir sænsk lögregluyfirvöld fyrir að hafa lekið nafni sínu til fjölmiðla þegar ákæran kom upp og þannig eyðilagt orðspor hans.

Sænsk lögregluyfirvöld hafa staðfest að enn stendur yfir rannsókn á Assange.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×