Erlent

Fimmtán ára drengur játar að hafa myrt tvo í Kristiansand

Atli ísleifsson skrifar
Fórnarlömbin Tone Ilebekk og Jakob Abdullahi Hassan.
Fórnarlömbin Tone Ilebekk og Jakob Abdullahi Hassan. Mynd/Lögreglan í Noregi
Fimmtán ára drengur hefur viðurkennt að hafa myrt fjórtán ára dreng og konu á fimmtugsaldri í Kristiansand í Noregi á mánudag.

Norska lögreglan greindi frá þessu á fréttamannafundi í morgun.

Drengurinn viðurkenndi að hafa stungið hinn fjórtán ára Jakob Abdullahi Hassan og leikskólakennarann Tone Ilebekk við Wilds Minne skólann í gær. Hann á að hafa kannast við Jakob, en ekki Ilebekk.

Hinn grunaði var handtekinn klukkan 21 í gærkvöldi að staðartíma.

„Játningin drengsins kemur í kjölfar umfangsmikillar rannsóknar lögreglu fyrstu þrjátíu tímana eftir morðið,“ segir Terje Skaar, talsmaður lögreglu.

Lögregla segir að drengurinn hafi gefið ítarlegar skýringar á ástæðum morðanna, en að frá þeim verði ekki greint opinberlega að svo stöddu.

Skaar segir að ekkert bendi til að fleiri en einn hafi staðið að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×