Innlent

Maðurinn í haldi náði að láta vita af sér með því að klifra milli svala á 4. hæð

Birgir Olgeirsson skrifar
Annar mannanna sem voru handteknir.
Annar mannanna sem voru handteknir. Vísir/GVA
Tveir eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um að hafa svipt karlmann frelsi í Fellsmúla í Reykjavík. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Maðurinn sem grunað er að hafi verið sviptur frelsinu, náði að gera lögreglu viðvart.

„Það er sem sagt til rannsóknar, hvort að maður hafi verið sviptur frelsi og haldið þarna gegn vilja sínum,“ segir Grímur.

Lögreglu barst tilkynning um málið á öðrum tímanum í dag en Grímur segir að aðgerðir á vettvangi hafi tekið stuttan tíma. „Maðurinn lét vita af sér og var lemstraður og gaf sinn framburð og það voru handteknir tveir menn,“ segir Grímur.

Klifraði á milli svala

Maðurinn sem grunað er að hafi verið sviputur frelsinu, náði að komast út úr íbúðinni og klifra á milli svala á fjórðu hæð til að láta vita af sér. Grímur staðfestir þessa frásögn og segir að þannig hafi tilkynningin hljóðað sem barst lögreglu.

Sjónarvottur Vísis á vettvangi sá annan mannanna sem voru handteknir reyna að flýja af vettvangi en lögreglan hafði hendur í hári hans fyrir utan blokkirnar við Fellsmúla 9 og 11.

Maðurinn sem er grunað að hafi verið sviptur frelsinu var leiddur út í sjúkrabíl af lögreglu á nærbuxunum einum klæða.

Óvíst með gæsluvarðhald

Grímur segir enga ákvörðun hafa verið tekna að svo stöddu hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur.

Lögreglan var með mikinn viðbúnað á svæðinu og rannsakaði hvern krók og kima. Var til að mynda tæknideild lögreglunnar kölluð til. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×