Viðskipti innlent

Taka á móti tífalt fleiri sendingum frá ASOS á mánuði en upphaflega var búist við

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen á Íslandi, en fyrirtækið tekur við miklum fjölda sendinga frá netversluninni ASOS sem er gríðarlega vinsæl hér á landi.
Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen á Íslandi, en fyrirtækið tekur við miklum fjölda sendinga frá netversluninni ASOS sem er gríðarlega vinsæl hér á landi. vísir
Flutningsfyrirtækið TVG-Zimsen áætlar að það muni taka við hátt í 3000 sendingum frá bresku netversluninni ASOS nú fyrir jólin en gríðarleg aukning hefur verið í sendingum frá búðinni síðustu daga og vikur að sögn Björns Einarssonar, framkvæmdastjóra TVG-Zimsen.

Ljóst er að ASOS nýtur mikilla vinsælda hér á landi en núna desember spilar jólaverslunin vissulega inn í þar sem fólk er að kaupa jólagjafir og ef til vill ný jóladress.

Til samanburðar tók TVG-Zimsen við hátt í 2000 sendingum í nóvember en Björn segir að fyrirtækið hafi upphaflega búist því að taka við um 300 sendingum í hverjum mánuði þegar þeir byrjuðu að þjónusta ASOS í haust. Miðað við það er aukningin núna í desember tíföld.

TVG-Zimsen er umboðsaðili flutningsfyrirtækisins Skynet á Íslandi. Skynet er með samning við ASOS og tekur fyrirtækið því við sendingum frá fataversluninni, tollar þær og afhendir kaupendum.

„Við erum markvisst að þróa okkar starfsemi í tengslum við netverslun og einn liður í því var að fara í þetta samstarf við Skynet sem er svo með samning við ASOS sem er svona feykilega vinsælt á Íslandi,“ segir Björn í samtali við Vísi.

Hann bendir á að vissulega hjálpi gengisþróun pundsins til og að verslun Íslendinga í Bretlandi eða í gegnum Bretland hafi aukist mikið einnig þess vegna.

„En netverslun er líka að aukast heilt yfir og eins og til dæmis ASOS þá er það mjög aðgengileg síða og auðvelt að versla hjá þeim. Svo spila flutningslausnir auðvitað líka inn í.“

Sem umboðsaðili Skynet á Íslandi tekur TVG-Zimsen við sendingum frá fleiri verslunum en Björn segir að hlutur ASOS sé langstærstur.

„Sú verslun hefur greinilega komið sér vel fyrir á íslenskum markaði.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×