Erlent

Sameinuðu þjóðirnar senda eftirlitsmenn til Aleppo

Atli Ísleifsson skrifar
Í sal öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag.
Í sal öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. Mynd/Breska sendinefndin hjá SÞ
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun samhljóða sem felur í sér að eftirlitsmenn á vegum stofnunarinnar verði sendir til sýrlensku borgarinnar Aleppo.

Frönsk stjórnvöld lögðu fram ályktunina sem kveður á um að allir aðilar á svæðinu veiti eftirlitsmönnunum óhindraðan aðgang til að fylgjast með ástandinu í austurhluta Aleppo, flutningum fólks úr borginni og að öryggi borgara sé tryggt.

Sendiherra Sýrlands gagnvart Sameinuðu þjóðunum segir ályktunina vera „enn einn liðinn í áróðursstríðinu gegn Sýrlandi og baráttu landsins gegn hryðjuverkamönnum.“

Flutningar almennra borgara og uppreisnarmanna frá Aleppo hófst að nýju í gærkvöldi, en áður hafði verið gert hlé á flutningunum vegna þess að kveikt var í rútum sem áttu að flytja fólk úr öðrum nærliggjandi bæjum, sem lúta stjórn stuðningsmanna Bashar al-Assads forseta, en eru umkringdir af uppreisnarmönnum.

Þúsundir bíða þess að komast frá austurhluta Aleppo og hafast þar við í slæmum aðstæðum enda er sá hluti borgarinnar í rúst.


Tengdar fréttir

Rútur brenndar af vígamönnum

Talið er að hryðjuverkasamtök hafi brennt rútur sem flytja áttu saklausa borgara í Sýrlandi. Stjórnarher Assads­ og uppreisnarmenn sömdu um vopnahlé svo að hægt væri að koma borgurum til bjargar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×