Enski boltinn

Conte nær ekki að taka Bonucci frá Juventus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonardo Bonucci.
Leonardo Bonucci. Vísir/Getty
Leonardo Bonucci verður áfram í herbúðum ítölsku meistarana í Juventus en kappinn hefur nú gengið frá nýjum samningi.

Bonucci hefur verið orðaður við Chelsea að undanförnu en Antonio Conte gerði á sínum tíma Bonucci að miðpunkti í vörn sinni hjá bæði Juventus og ítalska landsliðinu.

Eftir að Conte kom á Stamford Bridge voru enskir fjölmiðlar duglegir að velta uppi þeim möguleika að Bonucci myndi elta Conte til Lundúna.

Hinn 29 ára gamli varnarmaður hefur nú framlengt samning sinn við Juventus til ársins 2021 og það lítur hreinlega út fyrir það að Bonucci fari langt með enda feril sinn hjá Juve enda orðinn 34 ára gamall þegar samningurinn rennur út.

Leonardo Bonucci kom til Juventus frá Bari árið 2010 og í framhaldinu vann hann sér sæti í ítalska landsliðinu og varð að einum besta varnarmanni heims.

Það er skiljanlegt að Juventus hafi lagt ofurkapp á því að semja við Leonardo Bonucci sem er einn þriðji af hinni frægu vörn Juve við hlið þeirra Giorgio Chiellini og Andrea Barzagli. Auk þess að vera frábær varnarmaður er Bonucci góður með boltann og þekktur fyrir frábærar sendingar fram völlinn.

Antonio Conte bjó til þessa þriggja manna vörn á sínum tíma, fyrst hjá Juventus og fór síðan með hana inn í ítalska landsliðið.

Conte hefur síðan gert slíkt hið sama með Chelsea-vörnina með frábærum árangri en Chelsea er með sjö stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×