Enski boltinn

Wenger líkti dómurum við ljón í dýragarði: Þetta hefur verið hræðileg vika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er ekki í miklu jólaskapi þessa dagana en hann vældi aðra helgina í röð undan dómurunum, nú eftir 2-1 tap á móti Manchester City.

Wenger taldi að bæði mörk Manchester City í leiknum hafi aldrei átt að standa en City snéri við leiknum eftir að Arsenal komst yfir snemma leiks.

Leroy Sane var rangstæður þegar hann skoraði fyrra markið fyrir Manchester City og það er síðan túlkunaratriði hvort að það hafi verið rangstæða líka í sigurmarkinu sem Raheem Sterling skoraði.  Það er hægt að sjá þessi mörk í spilaranum hér fyrir ofan.

„Það er mjög erfitt að sætta sig við svona í leik af þessari stærðargráðu,“ sagði Arsene Wenger og bauð síðan upp á athyglisverða fullyrðingu:

„Það er vel þekkt að það er passað upp á dómara er eins og ljónin í dýragarðinum. Við verðum því að lifa með svona ákvörðunum,“ sagði Wenger.

„Ég skil vel að allir hjá City séu ánægðir. Ég væri það líka í þeirra stöðu. Málið er bara að bæði mörkin þeirra voru rangstöðumörk,“ sagði Wenger.

Tapið þýddi að Arsenal er nú komið niður í fjórða sæti en liðið fékk ekki stig í tveimur leikjum vikunnar á móti Everton og Manchester City.

„Þetta er búin að vera algjörlega hræðileg vika. Það sem er verra að við spiluðum vel í báðum þessum leikjum en fengum ekkert stig. Við komumst yfir í þeim báðum en töpuðum samt. Það eru auðvitað mikil vonbrigði,“ sagði Wenger.

„Áður en við veltum því fyrir okkur að við séum níu stigum á eftir Chelsea þá þurfum við samt að fara að hugsa um það af hverju við náum ekki að halda marki okkar hreinu,“ sagði Wenger.

Hér fyrir neðan má sjá tvö blöð leika sér aðeins með ummæli Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×