Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þess efnis að maður sem ákærður er fyrir að nauðga sambýliskonu sinni og beita hana grófu ofbeldi í byrjun febrúar á þessu ári skuli sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til 5. janúar næstkomandi.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan þann 7. febrúar og mun hann því hafa verið í gæsluvarðhaldi í tæpt ár verði hann látinn laus í byrjun janúar. Fyrstu þrjá dagana var hann í haldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðan á grundvelli almannahagsmuna.
Í liðinni viku ómerkti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manninum sem sakfelldi hann í júní meðal annars fyrir nauðgun og líkamsárás. Var maðurinn dæmdur í fangelsi í tvö og hálft ár en vegna ómerkingarinnar þarf málið nú að fara aftur fyrir héraðsdóm.
Í gæsluvarðhaldskröfu sinni nú vísar héraðssaksóknari í ákæruna en maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi í fjórar klukkustundir á heimili þeirra og beitt hana ofbeldi á meðan. Þá á hann að hafa neytt hana til munnmaka og endaþarmsmaka. Konan hlaut töluverða áverka en meðal annars brotnaði jaxl í efri gómi hennar, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms.
Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur fallast á það að maðurinn skuli áfram vera í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna enda sé hann undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varða meira en 10 ára fangelsi.
Úrskurð héraðsdóms og dóm Hæstaréttar má lesa hér.
Í gæsluvarðhaldi í tæpt ár grunaður um nauðgun og gróft ofbeldi gegn sambýliskonu sinni

Tengdar fréttir

Tveggja og hálfs árs heimilisofbeldisdómur ómerktur í Hæstarétti
Taldi niðurstöðu héraðsdóms þversagnakennda.

Grunaður um nauðgun og gróft ofbeldi gegn sambýliskonu sinni
Maðurinn hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða gæsluvarðhald. Lýsingar á meintum brotum í meira lagi óhugnanlegar.